<$BlogRSDUrl$>

Friday, November 28, 2003

Jæja, leiðindin eru liðin undir lok, í bili að minnsta kosti.

Listasöguprófið búið og gekk líka bara svona afleitlega... er ekki hress en get svo sem sjálfri mér um kennt. Svona er að frumlesa allt efni misserisins á einni viku... mæli ekki með þessari aðferð sko. Ég ætlaði að taka þetta námskeið mér til gamans en bjó mér bara til sjálfskaparvíti í staðinn. Lærði samt smá í listasögu... en reyndar held ég að ég hafi lært miklu meira í ensku því ég þurfti að fletta öðru hverju orði upp í bókinni þannig að listasagan sjálf fór nú eiginlega fyrir ofan garð og neðan... jæja, ég veit a.m.k. hvað kúbismi og súrrealismi eru núna, ætti að geta slegið þessari kunnáttu einhvers staðar um mig... en er ekki hress með prófið. Allt of erfitt miðað við að stundum fóru tímarnir minnst í listasögu heldur í einhverja utandagskrá umræðu um allt milli himins og jarðar. En kannski hefur öllum fundist þetta koma efninu við og ég er bara eitthvað eftir á. En það eina góða við þetta afleita próf var að öllum öðrum virtist ganga illa líka og myndaðist hálfgert upplausnarástand í prófinu sjálfu... já, það er gaman að gleðjast yfir því að öllum öðrum hafi líka gengið illa, hehehehe :-D

Ég horfi á síðasta þáttinn af "Bachelor" í gær. Ég ætlaði ALDREI að horfa á raunveruleikasjónvarp því mér finnst það ekkert rauverulegt heldur bara bjánalegt... en svo slysaðist ég til að horfa á einn af fyrstu þáttunum í fjárans "Bachelor" og það er allt Önnu Birnu að kenna því hún sagði mér að kíkja á þetta... ekki það að mér hefði sjálfri dottið það í hug sko... hehemm... Anyway, fáránlegir þættir en því miður hafði ég allt of gaman af þeim. Ég veit ekki hvort stelpurnar sem kepptu um hylli Hr. Firestone gerðu sig að meira fífli í þáttunum eða hann sjálfur. Neyðarlegt fyrir þær að virðast það örvinglaðar að þurfa að fara í sjónvarpsþátt til að reyna við gaur, ásamt 24 öðrum gellum by the way, og neyðarlegt fyrir hann að láta keppa um sig eins og einhverja verðlaunagyltu. En Hr. Firestone valdi hana Jen sem er svo góð... eða a.m.k. þykist vera það. Gott hann hafnaði Kirsten... fannst hún vera svo tæfuleg og með ekkert smá pirrandi talanda! Mér fannst samt Tina Faboulous best. En mig langar náttúrulega helst til að trúa því að þetta séu allt einhverjar leikkonur sem eru að reyna að meikaða og eru fengnar til að taka þátt í þessu rugli gegn ríflegri greiðslu... því mér finnst þetta svo klikkað að láta sér detta í hug að búa til svona sjónvarpsþátt. En hvort sem þetta er feik eða ekki, þá hafði ég hina bestu skemmtan af þessu. Er samt ekki farin að gefa öðrum raunveruleikasjónvarpsþáttum sjens, ætla t.d. aldrei að horfa á "Survivor." Er með fordóma og ætla bara að vera með þá.

Yes, það er fátt að frétta þegar maður gerir ekkert annað í 7 daga en að fletta sömu orðunum aftur og aftur upp í orðabók... eins og orðinu "representation." Óþolandi orð sem hefur a.m.k. 39 mismunandi merkingar. Get bara ekki lært þær allar og verð að fletta þessu orði upp í hvert sinn sem ég sé það. Þannig að ég held ég láti þetta bara gott heita. Fer að gera eitthvað sniðugt eins og fletta upp orðinu "representation." Enn eina ferðina.

Helgin lítur hálfdauflega út en ætli maður kíki ekki eitthvað út fyrst maður er laus úr prísundinni.

Þar til næst,
Kv. Þ.S.L.


Thursday, November 20, 2003

Aðalfrétt dagsins er sú að mér tókst að taka til í blogginu mínu og eyddi öllum geðvonskuköstunum og andsetna blogginu. Þannig að ég held að ég sé bara orðinn fullgildur bloggari með hreint og fínt blogg. Mikið líður mér miklu betur. Það er varla hægt að lýsa þessu. Það er kannski þess vegna sem ég hef ekki sofið almennilega síðan ég byrjaði að blogga... mér er alveg sama þótt húsið sé skítugt eins lengi og bloggið er hreint.

Húrra fyrir hreinu bloggi! :-D

Annars er ekkert að frétta. Er bara að skrifa og skrifa leiðinlega B.A.-ritgerð um hluti sem ég skil ekki einu sinni... komin með 26 síður, bara svona 24 eftir... ohhh... svo þarf ég að skrifa listasöguritgerð og að læra undir listasögupróf. Nenni ekki neinu og langar bara til að liggja í leti. Ekkert djamm um þessa helgi, snökt.

Best að halda áfram... :-(

Kv. ÞSL

Saturday, November 15, 2003

Gleðilegan laugardag öllsömul... hvað ætli sé að frétta... hmmm????

Jú, ég fór til Köben í fimm daga um daginn og það var bara rosa fínt. Ég flaug út með Rúnu 31. okt sl. og þegar við lentum á Kastrup uppgötvaði ég að ég var ekkert með flugmiðann minn heim! Eftir smá hræðslukast þá ákvað ég bara að fá mér bjór með Rúnu og kennslukonunum (hún var að fara á kennararáðstefnu) og eftir það talaði ég við flugmiðaskrifstofu SAS. Þeir sögðu mér að hafa samband við Flugleiði í Köben og ákvað ég bara að gera það eftir helgina og hætta að spá í þetta í bili. Okkur Rúnu þótti líklegast að flugfreyjan sem tékkaði okkur inn um morguninn hefði gleymt að láta mig fá flugmiðann til baka og enginn hefði tekið eftir neinu. Svo kvaddi ég Rúnu og kennslukonurnar eftir bjórinn og fór niður á aðalbrautarstöðina í Köben og beið þar soldið þangað til Marit kom og náði í mig um 4 leytið. Við fórum svo heim til Önnu Katrine sem býr á besta stað í miðbænum bara rétt hjá Strikinu. Við Marit fórum svo og keyptum meiri bjór og svo var bara veisla um kvöldið, bæði vinkonur Önnu og Maritar komu með fullt af mat og víni og svo kom Arne líka.

Daginn eftir hitti ég svo Rúnu og við fórum og náðum í Ara á aðalbrautarstöðina sem kom sérstaklega frá Árósum til að hitta okkur. Við fengum okkur að borða og rápuðum svo um á Strikinu og í eftirmiðdaginn fórum við í Sívalaturn og svo keyptum við bara bjór og fórum heim til Önnu Katrine og sátum þar og spjölluðum. Anna fór sjálf í afmæli þannig að við vorum bara ein heima og síðan fórum við út að borða sushi og svo á einhverja hræðilega búllu á Strikinu. Ari kvaddi okkur Rúnu svo á miðnætti til að ná síðustu lest heim til Árósa en við Rúna sátum áfram á búllunni og svo komu þrjár yngstu kennslukvennanna og djömmuðu með okkur áfram á búllunni sem heitir "lúðrablásarinn." Svo fórum við á alveg afleitt diskótek á móti sem heitir "Absalon." Ég skemmti mér reyndar alveg vel og lengi þarna inni og við djömmuðum alveg til kl. 6 og þá komst ég heim til hálf illan leik heim til Önnu, var eitthvað að villast og svona enda hugsunin ekki sú skýrasta klukkan 6 á sunnudagsmorgnum...

Síðan á sunnudeginum fórum við Anna Katrine að sjá "Kill Bill" og ég verð nú bara að játa að ég var frekar hrifin sko. Var með miklar væntingar og hún stóðst ágætlega undir þeim. Uma Thurman flott og ofbeldið allt mjög skemmtilega útfært.

Frá mánudegi til miðvikudags gerði ég svo sem ekkert það margt en var voða mikið að rápa í búðir og kaupa föt og fann m.a.s. spariskó sem gerist nú ekki á hverjum degi hjá mér. Ég borðaði eitt kvöldið með Marit og við gláptum á imbann og annað kvöldið fór ég upp í Arkitektarskólann til Arne og hann sýndi mér aðeins Kristjaníu en ég sá nú ekkert mikið af henni því það var orðið svo dimmt. Við borðuðum á einhverri hræðilegri búllu sem var samt soldið skemmtileg og svo sýndi hann mér "Pusher Street" - flóamarkaður með hass, mjög áhugavert. Síðan drukkum við bjór og kvöddumst svo og hann sagði að það hefði verið rosalega gaman að hitta mig aftur - ég kom með Berlínarstemmninguna til baka, vei :-D

Svo flugum við Rúna heim á miðvikudagskvöldið og hún hafði verið með flugmiðann minn heim allan tímann!!! Flugfreyjan hafði sett allt heila klabbið í umslagið hennar Rúnu og við hvorugar fattað neitt. Sem betur fer uppgötvaði Rúna það áður en ég fór að vasast í að fá nýjan miða hjá Flugleiðum í Köben. Svo komum við s.s. heim og hér í Reykjavík hafði ekkert gerst á meðan nema að DV fór loksins á hausinn en nú er komið nýtt blað... laugardagsblaðið í dag var nú bara eins og hnausþykkt Fókus.

Síðasta helgi, 7.-9. nóvember var bara mjög fín sko. Fór út bæði kvöldin eins og mér er líkt en á föstudagskvöldinu sat ég mest á Dillon með Elí­sabetu og Gunna og vinkonu hans sem heitir Marta. Svo fór ég á Kofann og náði þar í Klöru og við fórum á Prikið og þar var ég eitthvað að svipast um eftir einhverju fólki en fólk lét ekki sjá sig.

Á laugardagskvöldinu var 25 ára afmæli hjá henni Völu. Vinkona hennar mömmu hringdi í mig og sagði að það byggi 28 ára danskur strákur heima hjá systur hennar, sem yrði hér á landi í mánuð og hvort ég væri ekki til ­í að kynna hann fyrir einhverju fólki? Ég samþykkti það alveg og lét hann Láka danska mæta heim til mí­n um 8 leytið á laugardagskvöldið og Anna B. var hjá mér til að halda Dananum selskap. Hann Láki var alveg voða indæll og almennilegur og við Anna fylltum hann bara og tókum hann svo með í Völuafmæli þar sem hann a.m.k. hitti stelpurnar flestar og talaði aðeins við fólk. Það var bara fí­nt í­ afmælinu, það var fekar rólegt en bara alveg ágætt hreint. Svo um 2 leytið labbaði ég með Láka, Önnu og Rex niður á K-bar og svo fór ég með Láka á Dillon þar sem við hittum Sigrúnu, Víði og Tótu kærustuna hans. Við Sigrún og Láki enduðum svo á Celtic Cross þar sem við Sigrún hittum Óla Ragga sem er gamall skólafélagi úr Austó. Þannig að það var bara mjög gaman.

Svo var ég eitthvað orðin þreytt á þessu kvöldi þannig að ég vildi bara fara heim kl. 5 en Sigrún ætlaði að þrauka áfram. Láki labbaði með mér heim og ég mátti ekki hringja á leigubíl fyrir hann því hann vildi labba - hann býr í­ Grafarvogi by the way!!! Ég vona að hann hafi ekki orðið úti... veðrið var ekkert sérstaklega gott. Annars er Láki hérna á einhverjum styrk frá háskólanum sínum í­ Danmörku og verður út mánuðinn bara eitthvað að kynna sér land og þjóð.

Hvað hefur fleira gerst merkilegt... hmmm... já, ég fór í partý sl. fimmtudagskvöld til Drésar. Það var bara voða fí­nt og alltaf gaman að hitta heimspekiliðið. Ég var eitthvað að tala við einhvern strák í­ þessu partýinu og sagði einhverja hallærislega setningu af því að stundum er ég bara mjög hallærisleg þegar ég er að tala við stráka... og gaurinn greip þennan frasa sem ég lét út úr mér og skaut honum inn í samtalið 4 sinnum í viðbót þar til að mér var farið að líða verulega illa. Kannast ekki einhver við þetta? Maður er bara eitthvað að röfla, segir eitthvað bjánalegt en er ekkert að pæla í því­ og einhver grí­pur það á lofti og endurtekur það í tíma og ótíma þar til maður er orðinn mjög vandræðalegur og sannfærður um að vikomandi frasi hefði ekki getað verið bjánalegri... en ég er s.s. bjáni sem segi stundum bjánalega frasa sem fólk hefur eftir mér. Það er ekki gaman :-(

Svo var ég bara búin með bjórinn og einn drengur vinur minn var sendur í sendiferð ásamt vinkonu sinni að kaupa meiri bjór og lagði ég pening í púkkið... svo bólaði ekkert á Bonnie og Clyde sem voru örugglega stungin eitthvað af með bjórpeningana þannig ég svona smá datt úr stuði hægt og rólega... svo bakaði Drés amerískar pönnukökur til að hressa mannskapinn við og mér varð óvart litið á diskinn hans og sá að pönnukakan hans flaut öll í smjöri og sírópi... hann fékk sér s.s. ekki pönnuköku með smjöri og sírópi heldur smjör og síróp með smá pönnuköku... en þessi sjón gerði útslagið og ég fór heim kl. 2. En á heildina litið var samt fínt í partýinu.

Svo fór ég út í gær­. Horfði fyrst á Idolið. Tinna Marína er svo sæt að ég verð næstum lesbísk. Gott að hún komst áfram. Hip hip húrra!!! En þótt hún gæti ekki sungið tón myndi ég samt kjósa hana. Bara af af því­ hún er svo sæt. Ég held ég myndi alltaf kjósa hana alls staðar. Bara af afþví­ hún er svo sæt! Hver segir svo að útlitið skipti ekki máli??? En ég fór, eins og ég sagði, svo út. Það var bara fínt. Sat fyrst í­ kjallaranum mínum með Camille og Claire og svo röltum við á Kaffibar. Enginn þar. Röltum á Sirkus. Enginn þar. Röltum á Dillon. Enginn þar. Ákváðum samt að kaupa bjór nema Camille sem fór bara heim. Við Claire settumst og svo komu Vala og Viggi og loks Beta og Beggi. Þannig að þetta var bara fí­nt en fátt í frásögur­ færandi þannig að ég ætti bara að hætta að skrifa um þetta núna. Fór heim kl. 4. Er búin að eiga góðan dag í dag. Var að leika við tví­burana frændur mína 3 ára úti í garði í­ hádeginu og svo horfði ég á "Sex and the City" og át óhollt. Skrifaði svo BA-ritgerðina mí­na og hlustaði á hina dönsku "Superheroes." Ég elska dönsku ofurhetjurnar... Þetta er danska ástarsorgartónlistin hennar Önnu Katrine sem hún spilaði non stop úti í Köben en vondur Þjóðverji braut í­ henni hjartað. Ömurlegt. Skil ekki hvað er að honum. Anna Katrine kvenkostur hinn besti. Þjóðverjinn bjáni.

Er að fara í ammæli í kvöld.... svo í annað ammmmæli.... nenni þessu nú varla en ætla samt. Hef enga eirð í mínum beinum. Ætla samt að reyna að vera heima næstu helgi og læra. En fer örugglega út. Allt um það í næsta bloggi.

Bestu kveðjur
ÞSL

This page is powered by Blogger. Isn't yours?