<$BlogRSDUrl$>

Sunday, February 20, 2005

Ahhh... djöfull finnst mér kósý að sitja svona ein á sunnudagskvöldi að slaka á eftir helgina og horfa á einhverja svona vitleysu eins og "Rocky" á Skjá 1. Ég fær einhvern svona nettan nostalgíu-fíling þegar ég horfi á þessar myndir, það er fullt af drasli í þeim sem minnir mig á barnæsku mína enda held ég að ég hafi séð einhverjar af þessu Rocky myndum þegar ég var krakki. Svo ekki sé minnst á tónlistina, "Eye of the Tiger" maður... vuhúúú... og hitt lagið sem er þemalag Rockymyndanna, veit bara ekkert hvað það heitir en ég elska það! Þannig að ég glápi ekki á þessar myndir sem kvikmyndaleg listaverk heldur frekar svona sem ferð á vit minninganna.

Trallalalla... var að þjóna á árshátíð Frímúrarareglunnar núna í gær. Bera fram hreindýrakjöt og afgreiða á bar. Gekk miklu betur en á laugardeginum fyrir viku. Þá öskruðu blindfullir sextugir kallar á mig og ég titraði, skalf og nötraði af stressi enda hafði ég aldrei verið að afgreiða á bar áður. En það gekk miklu betur í gær og ég afgreiddi á barnum eins og ég hefði bara ekki gert annað um ævina... hehehe, segi nú svona en það gerði gæfumuninn að í gær var ég ekkert stressuð þannig að þetta gekk allt betur.

Svo eftir afgreiðsluna á barnum hélt ég á minn bar og dansaði fram eftir náttu. Var og gaman. Verð víst að fara að sofa því það bíður mín tími í sifja- og erfðarétti kl. 8 í fyrramálið! Oh, það verður svo gaman...

Meira seinna,
Kv. Thórhildur S. L.

Thursday, February 17, 2005

Jæja, tölvan komin úr viðgerð og allt orðið gott aftur.

Að sjálfsögðu þurfti tölvan að bila einmitt þegar ég var nýkomin með net og alles í hana og svona líka svakalega ánægð. En afþví að ég er Þórhildur þá ákvað Tölvuguðinn að þetta væri auðvitað of gott til að vera satt og lét því tölvuna bila... veit svo sem ekkert hvað var að en mér er sama, allt er orðið gott núna.

Úff, árshátíð Orator var í gær. Var bara voða gaman. Kom heim kl. 7 um morgun. Fékk mér pasta og sofnaði svo í ballkjólnum mínum. Kjóllinn var ekki hrifinn þegar ég vaknaði klukkan 14 í dag. En ég endaði í einhverjum pínulitlum sveittum kofa úti í Nauthólsvík eftir ballið á Sögu ásamt slatta af öðrum mjög drukknum laganemum. Hitti reyndar einn sem var edrú. En bara einn. Hringdi svo fimm sinnum á leigubíl en hann stoppaði alltaf röngum megin við þennan kofa. Eða ég beið röngum megin. Hverjum er ekki sama. Komst einhvernveginn heim á endanum, jú - tók leigubíl með einhverjum strákum. Veit engin frekari deili á þeim en ég var frekja og neitaði að taka þátt í kostnaði. Komst upp með það - jibbí kóla og gott á þá! ;-)

En árshátíðin var annars bara skemmtileg. Sturla Böðvarsson var heiðursgestur. Hann var ekkert sérstaklega skemmtilegur. Hins vegar dansaði hann aðeins um kvöldið og óx þá aðeins í áliti hjá mér - hélt hann væri innilega-dauður-úr-öllum-æðum-type-of-pólitíkus-persónuleiki. En þarna leyndist einhvers staðar líf, langt undir niðri. Svo var Hannes Hólmsteinn þarna. Hvað var hann eiginlega að gera þarna? Jæja, hann dansaði að minnsta kosti og þá sleppur þetta allt saman.

En helstu efasemdir mínar við árshátíð Orator var að hún yrði eins og árshátíðirnar í MR. Þá er ég nú aðallega að tala um böllin en ekki allt hitt sem tilheyrði árshátíðunum - það var yfirleitt mjög skemmtilegt. En djöfull var maður orðinn leiður á þessum grautfúlu dansleikjum á Broadway. Bara að árshátíðin í gær var á Hótel Sögu en ekki Broadway var strax betra. Enda Broadway of mikið gímald. En árshátíð Orator var mun skemmtilegri en MR-árshátíðirnar þannig að ótti minn var ástæðulaus. Jón Ólafsson og Stefán Hilmarsson spiluðu undir dansi. Var ekkert yfir mig hrifin af þeim tíðindum þegar ég frétti að þeir ættu að spila en svo lukkaðist þetta bara svona blessunarlega vel. Þeir spiluðu reyndar tonn af Sálarlögum en ég hef nú aldrei verið aðdáandi þeirra. En svo kom Eyjólfur Kristjánsson og saman tóku þeir Stebbi hana "Nínu." Ákaflega gaman að fá Júróvisjón 1991 svona beint í æð. Svo er "Nína" líka opinbert uppáhaldslag laganema. Veit ekki afhverju en þannig er það bara víst.

Tjá, já, svona var þetta líka gaman. Ætli ég láti þetta ekki bara duga í kvöld. Ætla að halda áfram að henda tíma mínum í ruslið.

Góðar stundir
Kveðja,
Þórhildur S. Líndal

Friday, February 04, 2005

Góðann daginn,

Nú er maður að sjálfsögðu í góðu skapi þar sem helgin góða er framundan. Þjófstartaði reyndar helginni í gærkvöldi þegar ég lenti á e-u svona mini-skralli með vinum mínum. Byrjaði nú í eftirmiðdaginn á því að fara í Stúdentakjallarann á spurningakeppni laganema. Fékk mér bjór þar og hugðist keyra ölvuð heim. Sleppti því samt þar sem skynsemin varð þessum eina bjór yfirsterkari. En spurningakeppin einkenndist öðru fremur af hálfleiðinlegum móral milli liða og menn voru soldið að æsa sig yfir smáatriðum... æi, þetta var samt alveg ókei. Lærði ýmislegt á þessu. Sérstaklega er mér minnistætt að Idi Amin var einræðisherra í Úganda á árunum... æi, man það ekki... en líka að Jónatan Þórmundsson skrifaði margar bækur um refsirétt. Gott hjá honum.

En svo fór ég út að borða um kvöldið með Ara og Gunna vinum mínum... fórum á Enrico´s á Laugaveginum sem mig hafði lengi langað til að prófa. Það var alveg fínn maturinn en mér fannst skammtarnir svona alveg í minnsta lagi því ég er ekki vön að vera hálfsvöng eftir matinn. Fékk Cosmopolitan ala Carrie Bradshaw í fordrykk... bara 990 krónur. Sanngjarnt. Þurfti klaka í Cosmóinn.

Svo fórum við á Næsta bar þar sem innilega enginn var. En svo kom Hilmir Snær. Auðvitað. Það myndi ekkert fara að rigna upp á morgun, er það nokkuð? Klara mín kom og hékk með okkur og við hittum svo Sigrúnu og mömmu hennar, hana Lillu. Svo var haldið á Bölstofuna. Hélt að Klara hefði fundið þetta nafn upp en þetta er víst búið að vera viðurnefni lengi en ég er bara eitthvað út úr. Á stofunni var margt um manninn... Vala var þarna með leikhúsfólki en svo kom Hanna Rún með Siggu vinkonu sinni. Góð stemmning, ölið flæddi, fólk að byrja saman í einu horni en hætta saman í því næsta. Svona á lífið að vera. Svo var ég að tala við Ingvar sem er svo góður og á meðan fóru Ari, Gunni, Sigga og Hanna öll á Sirkus. Ég var nú að spá í að elta þau en löngunin til að mæta á réttum tíma í stjórnskipunarrétt kl. 8 næsta morgun varð djammþorstanum yfirsterkari þannig að ég dreif mig bara heim á mjög skikkanlegum tíma.

Ekki gaman að vakna í morgun. Var mætt á réttum tíma í stjórnskipunarrétt. Lærði ekki mikið í dag og glósaði heldur ekki mikið. Drakk kaffi. Svo hálfan líter af vatni. Svo meira kaffi. Síðan kók. Líkaminn þarf vatn. En ekkert bara afþví ég var úti í gær, nope. Eftir tíma eyddi ég svo mjög dýrmætum tíma í að svara mjög ítarlegri könnun um kynlífshegðun mína, sem konur í hjúkrunarfræði eða læknisfræði voru að gera. Eflaust bara í þeim tilgangi að staðfesta lauslæti og óhóflega áfengisnotkun íslenskra og jú, erlendra ungmenna því þetta var víst einhver fjölþjóðleg könnun. En djöfuls tíma tók þetta. En ég fékk happdrættismiða eftir að hafa setið sveitt yfir að krossa við það í 40 mínútur hversu ósæmilega ég hefði eða hefði ekki hegðað mér síðustu mánuði og ár. En það reyndist vera vinningur á miðanum. Hvorki meira né minna en göngumæling hjá Össuri. Hvað í fjáranum er göngumæling hjá Össuri? Ég á bara að hringja og panta tíma! Gvuð, ég get ekki beðið eftir að fara í göngumælingu - það kemur örugglega eitthvað mjög spennandi út úr þessu þar sem ég er bæði kiðfætt, innskeif, með plattfót og ilsig. Eða eitthvað þannig, God knows.

Svo heyri ég bara að allir vinir mínir sem ég var með í gær hafi bara farið í eftirpartý til klukkan fimm um morgun og það án mín!!! Það var nú einu sinni ég sem var tengiliðurinn, suss! Er ekkert smááá móðguð! Fólk skemmtir sér bara ekkert svona neitt án mín.

Nei, nei, ég fékk svo miklu meira í staðinn. Ef ég hefði farið í eftirpartý þá hefði ég ekki fengið að komast að öllu þessu varðandi samkomutíma Alþingis, þingslit og þingrof sem ég var að læra í morgun. Mennt er sko máttur, huh!

Anyhow, helgin er handan við hornið. Set stjórnskipunarrétt og sifja- og erfðarétt á ís þangað til á mánudaginn. Halejúja og amen!

Kveðja,
THSLINDALWednesday, February 02, 2005

Góða kvöldið...

Búið að vera hið skemmtilegasta kvöld. Fékk tvær gamlar og góðar vinkonur í heimsókn og við vorum að klára að horfa á Íslensku tónlistarverðlaunin. Fengum okkur smá bjór og smá snakk og urðum fimmtán ára aftur. Stelpurnar skræktu yfir einhverjum gaur í Brain Police og voru brjálaðar þegar þeir fengu engin verðlaun og ég reyndi að finna mér einhvern til að vera skotin í á meðan á hátíðinni stóð...

Fann reyndar engan almennilegan en langaði svo að vera með í fílíng vinkvenna minna... verð kannski bara að segja að ég sé skotin í Mugison í kvöld, ótvíræðum sigurvegara kvöldsins og mjög vel kominn að þeim 77 verðlaunum sem hann fékk. Mikil dúlla og mikill listamaður... verð reyndar að viðurkenna að ég keypti plötuna hans af einskæru snobbi þar sem ég hafði heyrt svo góða hluti um hana... búin að gera mér væntingar og alles en Mugi Wugi má eiga það að hann stóð alveg undir væntingum því platan hans er bara mjög góð. Þarfnast reyndar meira en einnar hlustunar við að mínu mati en þegar maður er búinn að hlusta svona tvisvar þrisvar síast hún svona ansi skemmtilega inn... þannig að Mugison er vel að öllu því hóli og lofi kominn, sem hann hefur fengið undanfarið. Svo ekki sé minnst á hið feikiflotta umslag plötu hans sem var líka verðlaunað í kvöld. Enda snillingurinn Ragnar Kjartansson sem þar stóð að baki - gott mál :-)

Meira seinna,
Þórhildur S. L.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?