<$BlogRSDUrl$>

Thursday, March 31, 2005

Jæja, skólinn byrjaður aftur eftir páskafrí...

Já, það var nú meira fjörið um páskana og djöfull er erfitt að setjast aftur niður og lesa eftir þessa skemmtanatörn. En sl. þriðjudag þá tók Þórhildur sig saman í andlitinu og settist við og byrjaði aftur að lesa mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í gær var svo fyrsti tíminn hjá Björgu Thor í stjórnskipunarrétti eftir páska. Þótt þeir tímar séu nú alltaf skemmtilegir var ferlega erfitt að mæta aftur kl. 8 um morgun... en ég verð að segja, nánast án nokkurrar uppgerðar -jákvæðni, að umfjöllunin um mannréttindaákvæðin er bara ferlega skemmtileg!

En nú fer alvaran að hefjast. Prófin eru eftir mánuð. Stress, stress og mörg kíló af lesefni. Hah, eitthvað annað en þegar ég var í heimspeki. Þá skilaði maður endalausum ritgerðum og hespaði þeim af á nokkrum dögum og gat alveg leyft sér að kíkja út þrátt fyrir að eiga að skila ritgerð eftir nokkra daga. En í lögfræði þá þarf maður raunverulega að sitja við og lesa og getur ekki reddað sér bara "einhvernveginn" eins og maður gerði í den... gwaaaaa :-/

Oh, djöfuls fasteignasjónvarpið á Skjá 1... ekki það að ég sé raunverulega að horfa á þetta en samt, jú stundum... það er nefnilega farið að hvarfla að mér æ oftar núna í seinni tíð að fara að flytja að heiman... ég uppgötvaði það um daginn að ég er eina vinkona mín sem á ennþá heima í foreldrahúsum. Ef ég tel allar kunningjakonur mínar með líka og legg þær saman við vinkvennafjöldann, þá eru þær eitthvað um fjörtíu talsins og ég er EIN EFTIR HEIMA - AF ÞRJÁTÍU... ókei, þegar ég renndi í gegnum símaskrána mína fann ég u.þ.b. 10 vinkonur sem eiga ennþá heima í foreldrahúsum... vá, á ég virkilega 40 vina- og kunningjakonur? Ja, ef ég tel vinkonur vinkvenna vinkvenna minna með og svoleiðis.

En aðalatriðið er að mér líður eins og 25 ára gömlu smábarni sem finnst að það ætti að fara að flytja að heiman. Málið er bara að mér líður allt of vel heima til að nenna að drulla mér eitt eða neitt... það eina sem böggar mig er einstaka nöldur í p&m en ég reyni að kenna síðbúinni unglingaveiki hjá sjálfri mér þar um... iss, ekkert mál að lifa með því.

Ó gvuð, "The Swan" er að byrja á Skjá 1. Hvílík og önnur eins argasta geðveiki! Já, fegurðin & lífshamingjan felst einmitt algerlega í því að láta klippa í sig, skera sig og sjúga til hjá lýtalækni. Auðvitað, hvert einasta smábarn hefði getað sagt manni það. Til hvers að vera að búa til sjónvarpsþátt um svo augljósan sannleika? Nei, auðvitað geta svona lýtalækningar verið jákvæðar upp að vissu marki en þetta... þetta er bara rugl!

Annars eru fimmtudagskvöld góð sjónvarpskvöld... fyrst er það "Boston Legal" á Skjá 1. Sem laganemi ákvað ég nú að byrja að horfa á a.m.k. einn af þessum lögfræðiþáttum á Skjá 1 og varð þessi fyrir valinu. Denny Crane, Denny Crane, Denny Crane! Hvílík og önnur eins snilld. Hann gæti í raun bara labbað um allan þáttinn og sagt nafnið sitt án þess að nokkur flétta væri til staðar og þátturinn væri enn jafn góður.
Jess... svo er "Desperate Houswifes" að fara að byrja á eftir... ballywhooo!!! Loksins, loksins fékk ég eitthvað í staðinn fyrir "Sex and the City." Enda ekki búin að jafna mig eftir áfallið sem ég varð fyrir þegar sú þáttaröð rann sitt skeið á enda. Kannski geta hina örvæntingafullu húsmæður hjálpað mér að vinna úr því enda eru þær í rauninni bara gellurnar í "SATC" nokkrum árum síðar, allar giftar og fluttar í úthverfamartröð...

Best að setja sig í stellingar og fylgjast með dömunum.

Meira síðar,
THSLINDAL

Friday, March 25, 2005

Háskalegir páskar...

Jæja föstudagurinn langi runninn upp. Bara leiðinlegasti dagur ársins. Ég verð reyndar að viðurkenna að undanfarin ár hefur hann ekkert verið svo leiðinlegur en jafnvel þótt þessi dagur geti verið skaplegur er alltaf eitthvað leiðindayfirbragð yfir honum.

Kannski sést það best ef maður bregður sér út fyrir hússins dyr. Allir að viðra hundana sína og í eyrðarleysisbíltúrum. Fyrir nokkrum árum var nánast allt lokað alls staðar en nú er öldin orðin önnur og búið að rýmka opnunartíma víðast hvar. Þáttur í afhelgunarstefnu nútímans en ég kvarta reyndar ekki yfir því. En þrátt fyrir að margt sé opið núna á föstudaginn langa og maður geti í rauninni "gert" eitthvað - þá fylgir honum samt alltaf þetta leiðindayfirbragð. Þótt það hljómi líka fáránlega finnst mér tíminn líka lengur að líða þennan dag - sem ég ætti reyndar heldur ekki að að kvarta yfir þar sem mann skortir yfirleitt tíma.

En páskunum fylgir gleði og glaumur. Ég og vinir mínir erum svo sannkristin að í staðinn fyrir að minnast þjáninga Krists á krossinum snýst allt um að plana næsta partý. Í hverju á að vera, hvar á að hittast, hverjir ætla að koma og svo framvegis.

Ég var líka í partýi í gær. Nei, það var frekar svona samsæti. Þetta var eins konar Bobby Fischer samsæti. Allir sátu fyrir framan skjáinn með augun uppglennt og biðu þess að flugvélin með Bobby lenti, hann myndi stíga út úr vélinni eins og villimaður, nýgenginn út úr sjávarhömrum og segja eitthvað virkilega, virkilega óviðeigandi. En svo kom hann loksins og varð ég fyrir vonbrigðum yfir því að hann skyldi ekki segja eitthvað virkilega, verulega krassandi... nema þetta um eitthvað CIA-cover up í tengslum við dvöl hans hér síðast, sem hann ætlaði að útskýra seinna. Bíð spennt og í ofvæni.

En maður getur alltaf á sig blómum bætt. Ísland getur alltaf á sig furðufuglum bætt. Það er nefnilega ekki nóg af þeim hér á landi. Frægur furðufugl er betri en enginn furðufugl. Það skapaðist skemmtileg stemmning í gær í kringum þessa "heimkomu" "Íslendingsins" Bobbys Fischer og mun ég minnast þessa skírdagskvöld um ókomin ár með tregablandinni nostalgíu.

En verð að drífa mig núna... kaffiboð hjá Önnu vinkonu sem er heima um páskana. Ballywhooo!!!

Góðar stundir,

Þórhildur S. L.

Wednesday, March 23, 2005

Oh... ég verð að vera duglegri að skrifa á þetta blogg... mætti halda að það gerðist aldrei neitt, hehemm...

Fullt búið að gerast. Ég er orðin 25 ára. Djsaaa.... ég hélt svaka partý um helgina með Elísabetu vinkonu minni. Erum búnar að þekkjast síðan við vorum fimm ára og höfum aldrei haldið sameiginlegt afmæli áður og gerum eflaust ekki aftur... aðalástæðan fyrir að við gerðum það var sú að ég var home alone þannig að partýskilyrði voru öll hin bestu. Ég held að það hafi komið á milli 60 og 70 manns allt kvöldið en auðvitað var gegnumstreymi og fólk kom og fór. En ég fór að skemmta mér kvöldið fyrir afmælið og bauð öllum barnum í afmælið þannig að það hefðu alveg getað verið miklu fleiri... en það er ekkert að marka boð á barnum. Maður ætti samt að passa sig. Stórvarasamt að fara að skemmta sér kvöldið fyrir afmælishöld. En þetta fór allt mjög vel fram, svona að mestu leyti. Brotnuðu bara tvö, þrjú glös... og glerið í stóru málverki... og glerið í einni lítilli mynd... en ég náði að afmá vegsummerki áður en p & m komu heim. Ekkert mál. En svo fékk ég mjög margt góðra gjafa og var þetta partý alveg þess virði að hafa verið þrjá daga að taka til eftir það. Einn dagur fór í uppvask og annar og þriðji í skúr og skrúbb og bón. P & m voru bara hin ánægðustu með húsið þegar þau komu í gær.

Svo var aðalfundur Orator í gær og ný stjórn kosin. Fór allt mjög vel fram. Nema að það var alltaf verið að bauna á Ara Karlsson fyrir að brjóta fundarsköp með of löngum ræðutíma. En iss, hann var sko ekkert sá eini sem fór fram fyrir tímann. Ég ætlaði að standa upp og koma honum til varnar en var hunsuð... já, já, kannski alveg bara hið besta mál. Enda hefðu bjórarnir meira verið að tala en ég. En svo er ég líka að læra á það að í lagadeild er baunað meira á Ara en aðra menn og þykir víst sjálfsagt mál. Maður er svona að komast inn í þetta allt saman og læra á batteríið. Enda er maður bara á fyrsta ári. Svo var eftirpartý hjá nýkjörnum formanni Orator - þar réð "af med bukserne" ríkjum. Ég er orðin leið á "af med bukserne." Orðin leið á ljótum nærbuxum og loðnum laganema-lærum, misfrýnilegum. Legg til að "af med bukserne" fari í langt sumarfrí.

Fékk mömmu til að kaupa fyrir glanstímarit á flugvellinum úti í London. Fékk In Style, Glamour, Cosmopolitan og Marie Claire fyrir u.þ.b. 1200 kr. Á Íslandi kostar eitt svona tímarit 1200 kr. Hvaða vitleysa er það eiginlega? Kannski er þetta einhver svona lúmsk forræðishyggja til að koma í veg fyrir að ungar íslenskar stúlkur forheimskist af grunnhyggnum boðskap glanstímaritanna og fái allar anorexíu. Ég lá í þessu drasli þegar ég bjó úti í Berlín og keypti mér eitt glanstímarit á dag... en ég fékk ekki anorexíu til að reyna að líkjast súpermódelunum sem prýða hverja síðu... þvert á móti varð ég svo þunglynd af því að horfa upp á þau að ég hljóp út í búð og keypti mér einhvern óþverra að borða til að drekkja sorgum mínum. Ekki hollt, ekki gott. Var fegin að losna undan oki glanstímaritanna þegar ég kom aftur heim enda útilokað að maður geti leyft sér að kaupa tímarit reglulega hérna heima.

En samt gaman að fá nokkur tímarit svona öðru hverju til að tékka á því hvað sé In Style og verða pirraður yfir því að maður geti að sjálfsögðu ekki keypt sér neitt af "must-haves-unum" þar. Damn it! Þarna var flott pils... en draslið sem fylgir með þessum blöðum! Það er ekki hægt að kaupa eitt tímarit lengur án þess að það fylgi hálft apótek af dóti með... núna áðan til dæmis. Tvö forljót bleik snyrtiveski og "Glamour" geisladiskur sem er svo lélegur að það er sorglegt... nema þetta eina lag með Jamie Cullum sem er ókei. En annars drasl bara.

Já... svo er djamm í kvöld. Eða ætti maður kannski bara að læra? Ég hef ekki litið í bók í fimm daga og ég held ég sé komin í eitthvað páskafrí bara. En í lagadeild á maður að lesa um páskana, er það ekki? Oh, ég nenni því ekki. Þarf að lesa barnarétt. Nenni ekki, get ekki, vil ekki, kann ekki... best að reyna að leysa vandamálið með því að kíkja út á lífið. Anna vinkona mín bað mig að athuga hvort það væru ekki einhverjir tónleikar í kvöld... jú... Brain Police á Dillon og Vinir vors og blóma á Nasa. Þetta verður erfitt val. Helst þyrfti ég að láta klóna sjálfa mig fyrir kvöldið til að geta verið á báðum stöðum samtímis.

En það verður meira síðar,

Bestu kveðjur,
Thslindal.com

Wednesday, March 09, 2005

Jæja... hvað gerir maður síðasta daginn sem maður er 24 ára?

Tja, bara þetta venjulega, fer á fætur, borðar seríós með engum sykri og fjörmjólk, hleður óþarfa en en samt mjög nauðsynlegum nútímagræjum á borð við fartölvu, farsíma og ferðageislaspilara í skólatöskuna og labbar af stað í skólann... hangir í tíma og geispar svo golunni hægt og bítandi af leiðindum á Þjóðarbókhlöðunni, húsi gleðinnar...

Síðasti dagurinn 24 ára er samt búinn að vera hreint ágætur alveg - fyrir utan úðann í dag, ég þoli ekki úða. Ég er búin að vera í fádæma góðu skapi enda er ég afmælis-egóisti með afbrigðum og á í rauninni alltaf afmæli nokkra daga í röð. Á morgun er t.d. fyrsti í afmæli, síðan 11. mars er annar í afmæli og þann 12. sá þriðji. Síðan datt mér í hug að gera 19. mars að auka-afmælisdegi, bara svona upp á sportið.

Er að spá í að strengja þessi venjulegu "nú-ætla-ég-loksins-að-þroskast-heit" í tilefni stórafmælisins en það gerði ég fyrst þegar ég átti tvítugsafmæli. Var stödd úti á Ítalíu með allt í klessu í einkamálunum og er svei mér þá ekkert í ósvipaðri stöðu núna - verð reyndar að viðurkenna að ég hef líklega þroskast að því leytinu til að maður er hættur að taka þá hluti sem miður fara of alvarlega enda sýnir það sig yfirleitt að það rætist úr flestum málum fyrir rest. En hvað afmælisheitin varðar þá mistekst alltaf að fara eftir þeim enda er grautfúlt að læra af mistökunum og skemmtilegast bara að gera sem mest af þeim og sem oftast... þangað til að maður er búinn að gera þau svo oft að maður fær upp í kok og hættir - maður tekur loks eitt skref í þroska.

Get ekki fullyrt hversu mörg þroskaskref ég hef tekið síðan ég var tvítug en ég geri ráð fyrir að þau séu of fá. Einhver eru þau þó og vonandi mikilvæg.

Afmælisdagurinn bíður og alltaf kl. 11:37 bíð ég eftir að það verði breyting - sem að sjálfsögðu gerist aldrei - en mér finnst bara gaman að tékka, hvort einmitt á þeirri stundu gerist eitthvað innra með manni þannig að manni "líði" eldri. En ef eitthvað gerist þá líður mér yngri.

Er að spá í að kjósa rektor á morgun í tilefni afmælisins og nýta mér "hið einstæða tækifæri til að taka þátt í rektorskosningum." Tsjaaa... ég hef nefnilega beðið eftir því allt mitt líf að fá að kjósa háskólarektor. Ohhh... nenni ekki að taka afstöðu, er í raun alveg sama en finnst samt að ég verði að nýta mér andsk... atkvæðisréttinn... stundum verð ég svo dauðþreytt á því að þurfa endalaust að taka afstöðu... taka afstöðu í Alþingiskosningum, taka afstöðu í borgarstjórnarkosningum, taka afstöðu í kosningum til Stúdentaráðs... taka afstöðu um kosningu rektors... taka afstöðu til þess hvort maður eigi yfirhöfuð að nenna að taka afstöðu...

En þótt maður sé andlega uppgefinn á öllu þessu kosningaveseni þá er oft mjög gaman að taka afstöðu. Maður fílar sig sem geðveikt mikilvægan hlekk í keðju þjóðfélagsins fyrir að hafa nú nennt að nýta sér sinn lýðræðislega rétt til að hafa þar áhrif á gang mála. Auðvitað kýs maður háskólarektor. Vel á minnst - má bara ekkert vera að því að blogga lengur því ég þarf að kíkja inn á heimasíður frambjóðendanna til að mynda mér skoðun. Já, það þarf maður að gera ef maður fæddist ekki með eina slíka.

Blog you later...

Kveðja, Þórhildur -
sem er að verða aldarfjórðungs-gömul, o.m.g. :-/
"Twenty five - God I´m old" ("SATC" - 1. þáttur, 4. sería)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?